Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Fjölskylduvænt velferðarsamfélag með þátttöku allra íbúa í Norðurþingi

„Til hvers ertu að vasast í þessu?“ Þannig var ég nýlega spurður út í þá ákvörðun mína að taka þátt í framboði V-listans í komandi kosningum. Svarið verður óhjákvæmilega alltaf svolítið lengra en spurningin. Í sem stystu máli mætti segja það markmið okkar að hér verði gott og öruggt samfélag, traust og fjölbreytt atvinnutækifæri, jafnar og stöðugar forsendur til framþróunar í sveitarfélaginu í góðri sátt við menningu okkar og hefðir að ógleymdri virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Mikilvægt er að gera greinarmun á þessu tvennu; umhverfið er það sem mannshöndin hefur breytt og mótað í tímans rás en náttúran er hins vegar það sem við höfum ekki komist með puttana í. Þetta verðum við að hafa hugfast þegar við mörkum stefnuna í þessum málum og í þeirri vinnu á sjálfbær þróun að vera algjört lykilorð. Ég vil að gerðar verði raunverulegar ráðstafanir til að draga sem mest úr mengun og þess sé gætt að umhverfisáhrif framkvæmda séu jafnan í lágmarki. Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli fyrir lífsgæði íbúanna en ekki síður fyrir atvinnulífið ef að er gáð.

Frumkvæði og fjölbreytni

Ég vil standa vörð um öll störf hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem fyrir eru  í sveitarfélaginu og héraðinu öllu og hlúa vel að þeim. Við getum státað af fjölbreyttri matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu, við búum að góðri heilbrigðisþjónustu og opinberri þjónustu yfirleitt, ásamt fjöldanum öllum af smærri fyrirtækjum og einyrkjum – allt eru þetta hlekkir í sömu keðjunni. Ég tel líka mikilvægt að hér rísi ný fyrirtæki, stór og smá, sem aukið gætu á fjölbreytni í atvinnulífi og fjölgað störfum. Þó verðum við alltaf að gæta þess að það sem bætist við flóruna ryðji ekki öðru burt, raski á nokkurn hátt möguleikum þess sem búið er að koma á legg með ærnu erfiði eða spilli þeirri ímynd sem Þingeyjarsýslur búa að og byggir einkum á hreinleika og náttúrufegurð. Ég vil sjá atvinnuuppbyggingu hér í héraði sem hentar nýtingu á orkunni frá Þeistareykjum og á söndunum við Öxarfjörð. Við í V-listanum viljum auðvitað byrja að nýta orkuna á Þeistareykjum á næsta kjörtímabili til uppbyggingar á fjölbreyttu atvinnulífi, bæði í þéttbýli sem og í dreifbýli. Það þýðir ekki endalaust að sitja og bíða og vona. Við Þingeyingar getum þetta sjálf ef við tökum á okkur rögg og leitum eftir fyrirtækjum sem vilja nýta orkuna á skynsamlegan máta. En þá verðum við líka að standa saman og þess vegna þarf að setja á laggirnar atvinnumálanefnd með þátttöku fulltrúa frá öllum framboðum í sveitarfélaginu, atvinnurekendum sem og forsvarsmönnum stéttarfélaganna í sýslunni allri.

Atvinna dugir ekki ein og sér

Við undirbúning nýsköpunar í atvinnulífi þurfum við að vera skrefinu á undan og bjóða upp á leikskólapláss og íbúðir. Það fyrsta sem fólk leitar eftir er húsnæði og gæsla fyrir börn.  Það er mikilvægt að grunnþættirnir í sveitarfélaginu öllu séu í lagi, þannig löðum við helst fleira fólk til okkar. Allir íbúarnir verða að eiga kost á sömu þjónustu, ekki síst þegar kemur að leikskólunum sem verða að starfa alla virka daga ef vel á að vera. Nægilegt framboð á leiguhúsnæði er líka ein forsenda þess að fólk flytjist inn á svæðið. Margir eru til í að prófa að búa á nýjum stað, í hæfilega stóru samfélagi þar sem börnin eru örugg. Og til þess að fólk láti á það reyna, verður það að geta leigt sér húsnæði fyrst um sinn. Að kaupa fasteign er mikil skuldbinding sem fæstir takast á hendur fyrr en fólk hefur ákveðið að setjast að á svæðinu. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu skiptir þetta atriði meira máli en oftast áður.Ég sé fyrir mér  fjölskylduvænt velferðarsamfélag sem byggir á þátttöku allra íbúa svæðisins í stefnumótun sveitarfélagsins. Þar þurfa félagsleg gildi og velferð allra íbúa svæðisins að vera í fyrirrúmi. Traust og ábyrg samfélagsþjónusta er forsenda blómlegs atvinnulífs.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband